Ásta Dís Óladóttir, dósent við Viðskiptafræðideild HÍ, hefur tekið sæti í stjórn Samherja hf. í stað Helgu Steinunnar Guðmundsdóttur, sem setið hefur í stjórn félagsins um árabil og gegnt trúnaðarstörfum fyrir félagið. Greint er frá þessu á vef Samherja.

Ásta Dís, sem hefur ekki áður setið í stjórn Samherja, hefur á undanförnum árum komið að uppbyggingu náms í sjávarútvegi í HÍ og kennt meðal annars námskeiðið Rekstur í sjávarútvegi. Þá er hún annar höfundur bókarinnar Fisheries and aquaculture, the food security of the future sem Elsevier gaf út 2021.

Ásta Dís er stjórnarformaður Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands og MBA náms, Rannsóknarmiðstöðvar Ferðamála og Félags háskólakvenna. Þá er hún formaður Jafnvægisvogarráðs og Vísindasjóðs Háskólans á Akureyri.

Samherji þakkar Helgu Steinunni fyrir hennar störf fyrir félagið en hún hefur setið í stjórninni frá árinu 2013.

„Vöxtur Samherja hf. hefur verið verulegur á þeim næstum fjórum áratugum sem liðnir eru frá því starfsemin var flutt til Akureyrar. Helga Steinunn hefur frá þeim tíma tekið þátt í uppbyggingu félagsins og sat í stjórn Samherja frá árinu 2013. Hún var stjórnarformaður Samherjasjóðsins frá stofnun sjóðsins, sem hefur meðal annars stutt dyggilega við íþróttahreyfinguna á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.