Hilmar Stefánsson, framkvæmdastjóri Special Tours, hefur ákveðið að láta af störfum að eigin ósk. Í tilkynningu frá félaginu segir að Hilmar hafi leitt uppbyggingu Special Tours, Whales of Iceland og Reykjavík Röst undanfarin ár.
Ásta María Marinósdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Special Tours og hefur þegar hafið störf. Ásta María hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2013 og sem sölustjóri síðan 2015.
Þá hefur Þóra Matthildur Þórðardóttir verið ráðin sölu- og markaðsstjóri en hún hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan 2018.
Special Tours er þjónustu- og markaðsfyrirtæki í ferðaþjónustu sem leggur áherslu á siglingar í afþreyingarskyni allt árið um kring. Félagið gerir út frá gömlu höfninni í Reykjavík og býður meðal annars upp á hvalaskoðunarferðir, norðurljósaferðir á sjó, lundaskoðunarferðir og sjóstangaveiði. Í samstæðu Special Tours er auk þess hvalasýningin Whales of Iceland. Þá rekur félagið einnig kaffihúsið Reykjavík Röst við gömlu höfnina.