Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Klaks - Icelandic Startups og tekur hún við af Kristínu Soffíu Jónsdóttur, sem hóf nýlega störf hjá Leitar Capital Partners.

Ásta Sólilja starfaði áður sem viðskiptaþróunarstjóri hjá Auðnu tæknitorgi og hefur reynslu af viðskiptaþróun og nýsköpun m.a. í gegnum stjórnarsetu í ýmsum sprotafyrirtækjum. Ásta var áður fjármálastjóri Volta ehf og starfaði einnig í lyfja- og líftæknigeiranum m.a. fyrir Actavis og Íslenska erfðagreiningu og vann að viðskiptaþróun í ferðaþjónustu.

Ásta er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík, diplóma í stjórnun frá Harvard háskóla auk meistaragráðu i heilbrigðisvísindum og BS gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands.

„Nýsköpun er lykill að öflugu atvinnulífi, spennandi atvinnutækifærum og verðmætasköpun framtíðarinnar. Starfsemi Klaks hefur skipt sköpum á vegferð fjölmargra sprota sem hafa þroskast yfir í stöndug fyrirtæki. Ég er mjög spennt fyrir því að ganga til liðs við Klak og leiða áframhaldandi uppbyggingu starfseminnar í samstarfi við frábært teymi, sterka stjórn og öfluga bakhjarla,” segir Ásta.

„Það er mikill fengur að fá Ástu Sóllilju til liðs við Klak - Icelandic Startups. Ásta hefur víðfema reynslu af nýsköpun og fjárfestingum í gegnum fyrri störf og með setu í stjórnum sprotafyrirtækja. Við hlökkum til að vinna með Ástu og frábæru teymi Klak að því að efla nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi á Íslandi enn frekar,” segir Soffía Krisín Þórðardóttir, stjórnarformaður Klaks - Icelandic startup.

Klak er helsti stuðningsaðili nýsköpunar á Íslandi og rekur árlega viðskiptahraðlana Hringiðu og Startup SuperNova, frumkvöðlakeppnina Gulleggsins auk þess sem þau bjóða upp á vinnustofur og mentoraþjónustu fyrir styrkþega Tækniþróunarsjóðs.