Elma orkuviðskipti hefur ráðið Ástgeir Ólafsson í starf sérfræðings í markaðsviðskiptum og hefur hann þegar hafið störf. Elma mun í byrjun næsta árs setja á laggirnar fyrsta skammtíma raforkumarkað á Íslandi.
Ástgeir hefur síðustu fjögur ár starfað sem sérfræðingur á viðskiptasviði Nasdaq á Íslandi (Kauphöllin) en þar á undan starfaði hann sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu.
Hann er með BSc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur auk þess lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
Elma orkuviðskipti skrifaði á dögunum undir samstarfssamning við Nord Pool um uppboðskerfi fyrir skammtímamarkað fyrir raforku, sem verður fyrst um sinn í formi klukkustundarvöru með dagsfyrirvara en slíkur markaður er algengasta form raforkuviðskipta.
Þá hefur Elma sett á laggirnar rafrænt uppboðskerfi fyrir langtímasamninga og nýtir til þess rafrænt kerfi sem CROPEX, króatíski raforkumarkaðurinn hefur notað við góðan orðstír í vel yfir 10 ár.