Auðunn Þór Sólberg Björgvinsson hefur verið ráðinn viðskiptastjóri hjá Reitum og hefur þegar hafið störf hjá fasteignafélaginu.
Auðunn mun sinna tilboðs- og leigusamningargerð við nýja og núverandi leigutaka, og að viðhalda og styrkja viðskiptasambönd félagsins.
Auðunn var áður framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála hjá DHL. Þar áður var hann sölustjóri hjá Nova í rúman áratug þar sem hann leiddi þjónustu við núverandi viðskiptavini og markaðssókn félagsins á fyrirtækjamarkaði.
„Reitir byggja á sterkum grunni og sækja fram í öflugri framþróun og uppbyggingu fasteigna og innviða í þágu samfélagsins. Vaxtarstefna félagsins er leiðarljós í spennandi þróunarverkefnum og fjárfestingum en á sama tíma leggur félagið ríka áherslu á að bjóða viðskiptavinum sínum framúrskarandi þjónustu og klæðskerasniðið húsnæði,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita, í tilkynningu.
„Við erum virkilega glöð að fá Auðunn til liðs við öflugt teymi Reita og styrkja enn frekar sambönd okkar við núverandi og tilvonandi viðskiptavini.“