Baldur Stefánsson hefur gengið til liðs við norræna fjárfestingarbankann Beringer Finance sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar með áherslu á endurnýjanlega orkugjafa og umhverfisvæna tækni ásamt því að veita starfsemi bankans á Íslandi forstöðu.
Baldur tekur jafnframt sæti í framkvæmdastjórn bankans og mun hafa aðsetur í starfsstöðvum bankans í Stokkhólmi og Reykjavík.
Frá árinu 2008 hefur Baldur verið meðeigandi hjá Arctica Finance og var þar áður í fimm ár stjórnandi í alþjóðlegu fyrirtækjaráðgjafarteymi Landsbankans. Baldur hefur um 22 ára reynslu af fjárfestingarbankastarfsemi og fyrirtækjaráðgjöf.
Haft er eftir Aðalsteini Jóhannssyni, forstjóra Beringer Finance, í fréttatilkynningu frá bankanum, að Beringer bjóði Baldur velkominn til starfa. „Hann hefur mikla reynslu af því að stýra stórum alþjóðlegum verkefnum og mun reynsla og þekking hans nýtast vel í frekari uppbyggingu bankans. Hjá Beringer Finance mun hann leiða helstu verkefni bankans á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og umhverfisvænnar tækni, en sá geiri er ört vaxandi á alþjóðavísu,“ er jafnframt haft eftir Aðalsteini.
Baldur segir í tilkynningunni að hann hlakki til að taka þátt í að gera Beringer Finance að öflugum samstarfsaðila fyrir fyrirtæki og fjárfesta á sviði endurnýjanlegrar orku og umhverfisvænnar tækni, ásamt því að byggja upp aðra hluta starfseminnar á Íslandi og Norðurlöndum. „Beringer Finance byggir á traustum grunni og á sér langa sögu sem virtur fjárfestingarbanki. Með aukinni áherslu bankans á tækni og hugvit sé ég mörg tækifæri til sóknar“ er haft eftir Baldri.
Baldur hefur störf hjá bankanum 1. febrúar næstkomandi. Steinunn Kristín Þórðardóttir, sem hefur starfað sem forstöðumaður Beringer á Íslandi frá ágúst 2016, tekur við starfi forstöðumanns á sviði sjávarafurða og matvælatækni á alþjóðavísu og mun hafa aðsetur í starfstöð bankans í Osló.