Nýr lögmaður hjá Land lögmönnum, Margrét Anna Einarsdóttir, er jafnframt eigandi og framkvæmdastjóri Justikal ehf., og situr í stjórn ISIGN á Ísland, en það er hugbúnaðarfyrirtæki sem þróar rafrænar undirskriftir og aðra traustþjónustu.
„Ég hef verið í lögmennsku núna í níu ár, en nú kom þetta tækifæri til að snúa mér meira að upplýsingageiranum með því að vera sjálfstætt starfandi með Land lögmönnum. Það hentar mér vel, þar sem við Ólafur Páll Einarsson, framkvæmdastjóri ISIGN á Íslandi, erum að þróa rafræna lausn fyrir lögfræðina í gegnum félag okkar, Justikal,“ segir Margrét sem sinnir í lögfræðistörfum sínum málum af ýmsum toga.
ISIGN á Íslandi styður rafræn skilríki í átta löndum og vinnur að því að koma sem flestum samskiptum milli borgaranna og stjórnvalda í rafrænt form eins og Eystrasaltslöndin eru þekkt fyrir að vera í fararbroddi fyrir.
„Það sem við erum svo að hugsa með lausn Justikal er að íslenska ríkið bjóði þessa þjónustu fyrir alla þá sem sækja mál fyrir dómstólum. Þannig geti lögmenn til dæmis lagt fram skjöl rafrænt, dómarar geti afgreitt þau rafrænt því öll skjöl séu í kerfinu og svo framvegis,“ segir Margrét sem segir að þetta geti sparað íslensku samfélagi yfir 2,8 milljarða á ári, og aukið afköst um og yfir 30%.
„Það getur skipt lögmenn miklu máli enda erum við alltaf að berjast við ýmsa fresti. Það þarf að fara fyrir héraðsdóm til dæmis með kærur á úrskurðum og þar þarf að fá stimpil fyrir því að þetta hafi borist innan frestsins samkvæmt lögunum. Ein jólin þurfti ég til dæmis að kæra úrskurð og þá var auðvitað lokað í héraðsdómi en hægt er að hringja í neyðarsíma. Þá kemur ritari sérstaklega og opnar í 10 mínútur eftir kannski tveggja tíma bið, bara til að hægt sé að stimpla móttöku skjalanna.“
Fyrir utan vinnu sína með Land lögmönnum, Justical og ISIGN hefur Margrét gaman af því að stunda alls kyns útivist og hreyfingu, en hún hefur verið liðtæk í dansi frá unglingsárum.
„Ég er í sambúð með Halldóri Brynjari Halldórssyni, hæstaréttarlögmanni hjá Logos, og við æfum samkvæmisdansa einu sinni í viku, sem var reyndar hans hugmynd. Okkur þykir það einstaklega skemmtilegt að fá þarna tækifæri til að eyða tíma saman í öðru en lögfræðinni.“