Benedikt Orri Einarsson hefur verið ráðinn forstjóri haftæknifyrirtækisins Rafnars, að því er kemur fram í tilkynningu. Benedikt var áður framkvæmdastjóri fjármála hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Meniga.
Þar áður starfaði hann m.a. sem fjármálastjóri Carbon Recycling International (CRI) ásamt því sem hann byggði upp og stýrði deild sem sá um endurskipulagningu fyrirtækja í viðskiptum við Landsbankann á árunum 2008-2010. Þar áður starfaði Benedikt í fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans en hann hefur einnig setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja.
Benedikt er fæddur árið 1978 og er með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði og B.Sc. gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Benedikt er giftur Huldu Hallgrímsdóttur, framkvæmdastjóra nýsköpunar og rekstrar hjá Sýn, og eiga þau þrjú börn.
„Ég er mjög spenntur fyrir þeirri vegferð sem Rafnar er á sem alhliða haftæknifyrirtæki. Aðgengið að höfunum er að aukast og það skapar möguleika til að senda fjölbreytt sjóför, mönnuð og ómönnuð, í alls kyns leiðangra óháð sjólagi. Til að mynda í vísindaskyni, til veiða, til þjónustu við úthafsiðnað og kolefnisförgunariðnað, í ferðamennsku eða til gæslu hafsvæða og innviða,“ segir Benedikt Orri Einarsson, forstjóri Rafnar.
„Sérfræðingar spá því að umferð og umsvif á höfunum muni aukast umtalsvert á næstu árum. Ein mesta aukningin verði í formi ómannaðra sjófara, svokallaðra drónabáta, bæði sjálfstýrðra og sem stýrt er frá landi eða sjó líkt og ómönnuð loftför. Rafnar stefnir að því að verða eitt fremsta haftæknifyrirtæki heims, fyrirtækið er í dag vel fjármagnað og eigendur hafa sett markið á skráningu þess á markað innan fárra ára.“
Rafnar vinnur að því að auka aðgengi að úthöfunum með þróun nýrra haftæknilausna. Upphafið að stofnun fyrirtækisins var uppfinning Össurar Kristinssonar, ÖK Hull skipsskrokkurinn.
Rafnar hefur síðustu misseri verið að færa út kvíarnar á tæknisviðinu samhliða sölu og framleiðslu á bátum sem fer fram erlendis. Sérleyfisframleiðsla báta sem nýta tækni Rafnar fer jafnframt fram á nokkrum stöðum í Evrópu.
„Það er mikill ávinningur að fá Benedikt sem forstjóra inn í félagið til leiða næsta fasa í vexti þess og koma Rafnar betur á kortið sem alþjóðlegu tækni- og hugverkafyrirtæki. Benedikt hefur umfangsmikla reynslu úr fjármála- og tæknigeiranum og hefur í fjöldamörg ár komið að rekstri íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegu rekstrarumhverfi,“ segir Björn Ársæll Pétursson, stjórnarformaður Rafnar.