Origo hefur ráðið Berglindi Unu Svavarsdóttur sem forstöðukonu Digital Labs. Digital Labs deildin veitir þjónustu og ráðgjöf á sviði stafrænnar umbreytingar, veflausna, hagnýtingu gagna og gervigreindar.
Í tilkynningu segir að með ráðningu Berglindar Unu styrki Origo stöðu sína sem leiðandi afl í stafrænni umbreytingu og nýsköpun á íslenskum markaði.
Berglind Una kemur til Origo með mikla reynslu af hugbúnaðarþróun og stafrænum umbreytingarverkefnum. Síðan 2018 hefur hún starfað hjá Gangverk, þar af sem Delivery Lead, þar sem hún leiddi fjölþjóðleg teymi í stafrænni þróun fyrir viðskiptavini á borð við Sotheby’s og Kviku Banka.
Síðasta árið hefur hún starfað sem Head of Operations hjá Basta, sprotafyrirtæki sem stofnað var af Gangverk og erlendum fjárfestum, þar sem hún stýrði rekstri og vöruþróun.
„Eftir sjö frábær ár hjá Gangverk geng ég stolt frá borði og tek þakklát við nýju hlutverki sem forstöðukona Digital Labs hjá Origo. Ég er afar spennt að taka þátt í ótal krefjandi og spennandi verkefnum fyrir núverandi og nýja viðskiptavini Origo,“ segir Berglind Una.
Hún er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur ásamt því lokið markþjálfun og menntun í QA.
„Við erum mjög ánægð að fá Berglindi Unu til liðs við okkur í Origo. Hún kemur með mikinn kraft og dýrmæta reynslu af stafrænum umbreytingum og þróun, sem styrkir okkar stefnu í framúrskarandi hugbúnaðargerð. Með Berglindi fáum við öflugan liðsfélaga í okkar vegferð og erum sannfærð um að hún muni hafa jákvæð áhrif á þróun og vöxt núverandi og framtíðar viðskiptavina Origo,“ segir Árni Geir Valgeirsson, framkvæmdastjóri hugbúnaðarlausna hjá Origo.