Alfa Framtak, rekstraraðili sérhæfðra sjóða, hefur ráðið til sín tvo nýja starfsmenn, Bergstein Pálsson og Davíð Orra Davíðsson.
Bergsteinn Pálsson hefur verið ráðinn sérfræðingur í framtaksfjárfestingum hjá Alfa Framtak. Hann kemur frá Íslandsbanka, þar sem hann starfaði sem sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf bankans. Þar áður var hann greinandi í markaðsviðskiptum hjá Acro Verðbréfum.
Bergsteinn er með B.Sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands, M.Fin. í alþjóðafjármálum frá Glasgow University og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum á Íslandi.
Davíð Orri Davíðsson hefur verið ráðinn greinandi í framtaksfjárfestingum hjá Alfa Framtaki. Hann kemur frá KPMG, þar sem hann starfaði sem sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf. Davíð Orri er með B.Sc. í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.
Alfa Framtak rekur tvo framtakssjóði með með samtals 22 milljarða króna í áskriftarloforð. Sjóðir í rekstri Alfa Framtaks hafa fjárfest í fyrirtækjum á borð við Origo, INVIT, Thor Ice Chilling Solutions, Nox Health, Tixly, Greiðslumiðlun Íslands, Travel Connect, Reykjafell, Málmsteypu Þorgríms Jónssonar og hótelum.
Alfa Framtak sérhæfir sig í fjárfestingum og stuðningi við stjórnendur, athafnafólk og fyrirtækjaeigendur sem vilja ná því besta út úr sínum rekstri. Markmið félagsins er að hámarka verðmæti fjárfestinga og skila fyrirtækjum af sér í betra ástandi við sölu og þannig skilja eftir sig jákvæð fótspor í íslensku viðskiptalífi.