„Við viljum að sjálfsögðu halda áfram að byggja á þessu frábæra starfi með okkar besta fólki og að viðhalda titlinum sem besta matarupplifun heims,“ segir Guðný Ljósbrá Hreinsdóttir sem hefur verið ráðin framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Wake Up Reykjavík, sem sérhæfir sig í matarferðum um Reykjavík undir nafninu The Reykjavik Food Walk. Matartúrinn situr nú í fyrsta sæti á lista TripAdvisor yfir bestu matarupplifun á heimsvísu með yfir 10.000+ 5 stjörnu umsagnir.

Guðný hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2018, fyrst sem matarleiðsögumaður samhliða grunnnámi og síðar meir á öðrum sviðum félagsins. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum í fyrra þar sem hún greindi upplifun ferðamanna sem komu í áðurnefndan matartúr. Ritgerðin vann verðlaun á vegum Samtaka Ferðaþjónustunnar og Rannsóknarmiðstöðvar Ferðamála fyrir framúrskarandi lokaritgerð um ferðamál á Íslandi.

Guðný segir enga tilviljun að hún starfi við matarupplifanir. „Ég veit ekkert skemmtilegra eða betra en að upplifa nýjan mat og menningu. Ég er því dugleg að fara út að borða hér heima og erlendis. Mér finnst einnig mjög gaman að elda sjálf og er ítölsk matargerð þar mikið í uppáhaldi. Ég er svo heppin að kærastan mín Katrín Björk deilir þessu áhugamáli með mér.“

Síðastliðin ár hefur Guðný einnig starfað hjá umboðs- og viðburðafyrirtækinu Paxal, sem Máni Pétursson stendur á bak við.„Ég hef mikinn áhuga á tónlist og reyni því að mæta á tónlistar- og menningarviðburði þegar ég get. Hjá Paxal kom ég að skipulagningu Októberfest SHÍ og þá eru tónleikar Ice Guys í Kaplakrika haldnir í næstu viku."

Nánar er rætt við Guðnýju í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. miðvikudag, 6. desember.