KPMG hefur ráðið Birgi Örn Arnarson sem meðeiganda á ráðgjafarsvið KPMG á Íslandi og mun hann sinna áhættustýringarráðgjöf, sjálfvirknivæðingu og ráðgjöf tengdri gervigreind bæði á Íslandi og á Norðurlöndum.

Birgir hefur starfað til langs tíma í banka- og tryggingarstarfsemi og er með doktorspróf í aflfræði frá Cornell háskólanum í Bandaríkjunum. Hann hefur síðustu ár starfað sem framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Skaga.

„Það er afskaplega mikill fengur fyrir okkur hjá KPMG að fá Birgi Örn til liðs við okkur. Hann hefur mjög víðtæka reynslu af áhættustýringu fjármálafyrirtækja í gegnum langan og farsælan starfsferil. Viðskiptavinir okkar munu án efa njóta hans miklu þekkingar, hvort sem er á Íslandi eða á Norðurlöndunum. Við hjá KPMG hlökkum til að fá Birgi til starfa,“ segir Svanbjörn Thoroddsen, sviðsstjóri ráðgjafarsviðs KPMG.

Birgir vann í áhættustýringu Kaupþings og Arion banka, m.a. sem framkvæmdastjóri, og starfaði í kjölfarið við ráðgjöf áður en hann fluttist búferlum til Sviss með fjölskylduna sína.

Þar starfaði Birgir sem yfirmaður markaðsáhættugreiningar á fjárfestingasviði alþjóðlega tryggingafélagsins Zurich. Eftir að hafa unnið í Sviss í þrjú ár flutti Birgir til Lúxemborgar þar sem hann hóf störf hjá PayPal samstæðunni og gegndi þar m.a. stöðu framkvæmdastjóra áhættustýringar PayPal Europe og var yfirmaður lausafjárgreiningar hjá PayPal samstæðunni.