Birkir Björnsson hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra upplýsingatækni hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Arctic Adventures.

Birkir hefur 20 ára reynslu í upplýsingatæknigeiranum og kemur til Arctic Adventures frá fjölmiðlafyrirtækinu Sýn þar sem hann hefur verið forstöðumaður upplýsingatæknisviðs síðustu ár.

Áður hefur Birkir einnig starfað sem forstöðumaður rekstrar og þróunar á upplýsingatæknisviði hjá Össur. Hann er með MBA gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og hóf störf hjá Arctic Adventures í september síðastliðnum.

„Það er mikill fengur að fá Birki inn í þann góða hóp starfsfólks sem starfar hjá fyrirtækinu nú þegar. Birkir býr yfir dýrmætri þekkingu og reynslu á sviði upplýsingatækni sem mun nýtast okkur vel í komandi verkefnum. Við leitumst stöðugt við að bæta þjónustuupplifun viðskiptavina okkar og öflugir innviðir eru mikilvægur þáttur í því,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic Adventures.

Arctic Adventures skipuleggur, selur og sér um framkvæmd ferða og afþreyingar á Íslandi og víðar. Hjá fyrirtækinu starfa um 200 manns, bæði á Íslandi og í Vilníus. Fyrirtækið keypti nýverið ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í ferðaþjónustu í Alaska.