Birna Einarsdóttir, fyrrverandi bankastjóri Íslandsbanka, og Sigurður Ásgeir Bollason fjárfestir hafa ákveðið að bjóða sig fram til stjórnar Skeljar fjárfestingarfélags. Þetta kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndar félagsins.

Sigurður Kristinn Egilsson og Nanna Björk Ásgrímsdóttir gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu hjá Skel.

Engir aðrir buðu sig fram áður en tilnefningarnefnd Skeljar ritaði skýrsluna. Nefndin ákvað að tilnefna þá þrjá sitjandi stjórnarmenn sem gáfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu auk Birnu og Sigurðar Ásgeirs.

Nefndin leggur því til að eftirfarandi einstaklingar verði kjörnir í stjórn Skeljar:

  • Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður – tók fyrst sæti 2019
  • Birna Ósk Einarsdóttir, stjórnarmaður – tók fyrst sæti 2023
  • Guðni Eiríksson, stjórnarmaður – tók fyrst sæti 2023
  • Birna Einarsdóttir
  • Sigurður Ásgeir Bollason

Í tilnefningarnefnd Skeljar sitja Almar Þ. Möller, lögmaður á Mörkinni lögmannsstofu, Álfheiður Eva Óladóttir, endurmenntunarstjóri við Háskólann á Bifröst og Birna Ósk Einarsdóttir, stjórnarmaður hjá Skel. Almar er formaður nefndarinnar.

Birna situr í stjórnum ýmissa fyrirtækja, m.a. Iceland Seafood International hf‏., Verðbréfamiðstöðvar Íslands hf., Kjarnafæði Norðlenska ehf., Gallon ehf. og Orkunnar IS ehf. en tvö þau síðastnefndu eru dótturfélög Skeljar.

Birna hefur upplýst nefndina að komi til þess að hún verði kjörin í stjórn Skeljar muni hún segja sig úr stjórn Gallons og Orkunnar.

Sigurður Ásgeir er eiginmaður Nönnu Bjarkar en þau eru meirihlutaeigendur félagsins RES 9 ehf., sem á 47,94% hlut í Streng hf., stærsta hluthafa Skeljar með 51,6% hlut.

Í skýrslunni kemur fram að Sigurður hafi komið að rekstri fjölmargra verslana, bæði hér heima og erlendis ýmist sem eigandi og fjárfestir eða stjórnarmaður. Þar megi nefna verslanir eins og All Saints, Whistles, Karen Millen, Shoe Studio og Warehouse.