Bjarni Heiðar Halldórsson hefur verið ráðinn í stöðu verkefnastjóra samfélags-og umhverfismála hjá Hagkaup og hefur nú þegar hafið störf.

Hann er með BS gráðu í viðskiptafræði og stundar meistaranám í upplýsingastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.

Bjarni starfaði á árunum 2014-2017 sem framkvæmdarstjóri rekstrarsviðs hjá Domino’s Pizza á Íslandi og síðar hjá sama fyrirtæki í Noregi. Hann hefur einnig starfað sem stundakennari við Háskólann á Bifröst frá árinu 2021.

“Ég er gífurlega spenntur fyrir þeirri vegferð sem er fram undan hjá Hagkaup og hlakka mikið til að hjálpa fyrirtækinu að ná þeim háleitu markmiðum sem það hefur sett sér í tengslum við umhverfisvernd og samfélagslega ábyrgð,” segir Bjarni.

Verkefnastjóri samfélags- og umhverfismála starfar þvert á allar deildir félagsins og ber meðal annars ábyrgð á rýrnunarmálum, pöntunarferlum, stefnumiðuðum aðgerðum gegn matarsóun og eftirliti með réttri flokkun úrgangs.

“Við teljum mikinn liðsstyrk fyrir okkur að fá Bjarna inn til þess að leiða verkefni sem snúa að samfélags-og umhverfismálum sem skipa sífellt stærri sess í okkar vegferð og skipta okkur gríðarlega miklu máli” segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups.