Björn Margeirsson hefur verið ráðinn í starf tæknistjóra hjá nýsköpunarfyrirtækinu Coolity, sem þróar einangrandi og jarðgeranlegar heildsölupakkningar fyrir ferskan fisk úr grasi.
Björn er með MSc í vélaverkfræði frá Chalmers University of Technology og doktorsgráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands. Doktorsritgerð hans fjallaði um hermun hitastigsbreytinga í flutningi ferskra fiskafurða.
Meðfram doktorsnámi starfaði Björn sem sérfræðingur, verkefnastjóri og fagstjóri hjá Matís ohf. frá 2007 til 2013. Hann starfaði sem rannsóknarstjóri hjá systurfyrirtækjunum Sæplast og Tempra frá 2013 til 2023 með áherslu á rannsóknir og vöruþróun varmaeinangrandi matvælapakkninga.
Í hlutastarfi hjá Háskóla Íslands hefur Björn sinnt kennslu, rannsóknum og leiðbeiningu meistara- og doktorsnema frá árinu 2007. Hann hefur leiðbeint tveimur doktorsnemum, 23 meistaranemum og birt 14 ritrýndar vísindagreinar sem flestar fjalla um ferskfiskpakkningar, einangrun þeirra, styrk og/eða áhrif á fiskgæði.
„Ég er alinn upp á sveitabæ í Skagafirði og fékk áhuga á hagkvæmri nýtingu náttúruauðlinda í vöggugjöf. Frá fyrri störfum mínum veit ég að lengi hefur verið leitað að mögulegum arftaka frauðplastkassa til flutnings á ferskum fiski. Grastrefjakassi Coolity er ákaflega spennandi og raunhæf hugmynd, sem ég hlakka til að þróa og sjá hvort við getum ekki gert heiminn betri um leið,“ segir Björn.
„Það er engum blöðum um að fletta að reynsla Björns og þekking eru einmitt það sem Coolity þurfti á að halda á þessum tímapunkti í þróun okkar plastlausu fiskikassa. Ég hlakka mjög til samstarfsins“, segir Anna María Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Coolity.