Netverslunin Boozt hefur ráðið Sylvíu Clothier Rúdolfsdóttur sem svæðisstjóra íslenska markaðarins „og tekur þar með stórt skref til að styrka stöðu Bootz enn frekar á markaðnum og á Norðurlöndum“, að því er segir í fréttatilkynningu.

Sylvía mun þróa og innleiða lykilþætti til styrktar vörumerkinu og efla vöxt Boozt.com á íslenskum markaði.

„Ég er þakklát fyrir traustið sem mér er sýnt og hlakka mikið til að takast á við fjölbreytt og krefjandi verkefni sem framundan eru, og að starfa með öflugum hópi starfsfólks hjá Boozt,“ segir Sylvía.

Sylvía starfaði áður sem skrifstofu- og markaðsstjóri hjá Microsoft á Íslandi sem fól í sér samstarf og samskipti við danska markaðinn og aðlögun þeirra að þeim íslenska. Þá starfaði hún í mörg ár við stýringu innkaupa, markaðsgreiningu og verkefnastjórn sem rekstrarstjóri hjá NTC.

„Verandi Íslendingur er það mér ánægja að geta boðið Íslendingum upp á sama vandaða og ört stækkandi úrval og hin Norðurlöndin hafa nú þegar aðgang að og með sérfræðikunnáttu Sylvíu sem svæðisstjóra (Country Manager) munum við halda áfram vegferð okkar að bjóða íslendingum upp á einstaka þjónustuupplifun og vandað vöruúrval á Boozt.com,” segir Hermann Haraldsson, einn stofnenda og forstjóri Boozt.

Boozt er ein stærsta netverslun Norðurlanda. Síðustu ár hefur Boozt verið í örum vexti og árið 2021 jókst velta fyrirtækisins um 33,4% og nam yfir 78 milljörðum íslenskra króna. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá nýlega hefur þó hægst á tekjuvexti fyrirtækisins.