Edda Rut Björnsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Innanlandssviðs hjá Eimskip. Innanlandssviði tilheyra innanlandsflutningar, vörudreifing, starfsemi vöruhúsa og frystigeymslna ásamt fasteignaumsjón.
Þá heyrir dótturfyrirtækið Sæferðir einnig undir sviðið en á því sviði starfa um 400 starfsmenn á 18 starfsstöðvum víðsvegar um landið.
Edda hóf störf sem markaðs- og samskiptastjóri Eimskips árið 2019 en hefur verið framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs félagsins frá árinu 2020. Þar áður starfaði hún hjá Íslandsbanka í 12 ár í ýmsum hlutverkum, síðast sem forstöðumaður sölu- og viðskiptastýringar á Fyrirtækja- og fjárfestasviði bankans.
Hún er með B.Sc. í viðskiptafræði með áherslu á tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Edda er einnig varaformaður Samtaka verslunar og þjónustu ásamt því að sitja í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins.
Harpa Hödd Sigurðardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs í stað Eddu.
Hún hefur starfað hjá Eimskip frá árinu 2019 í nokkrum hlutverkum á Mannauðs- og samskiptasviði, síðast sem forstöðumaður fræðslu og þróunar. Áður en Harpa hóf störf hjá Eimskip starfaði hún við mannauðsmál hjá Lyfju hf.
Harpa er með B.Sc. í sálfræði og M.Sc. í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. Mannauðs- og samskiptasviði tilheyra mannauðs-, markaðs- og samskiptamál. Sjálfbærnimál sem áður tilheyrðu sviðinu flytjast á Fjármálasvið.
Samhliða þessum breytingum lætur Jónína Magnúsdóttir sem verið hefur framkvæmdastjóri Innanlandssviðs af störfum.
„Edda Rut hefur verið í framkvæmdastjórn Eimskips frá árinu 2020 og þekkir starfsemi og viðskiptavini félagsins vel. Hún hefur borið ábyrgð á viðamiklum málaflokkum þvert á fyrirtækið og mun sú reynsla og þekking koma að góðum notum í nýju starfi meðal annars þegar kemur að ræktun viðskiptasambanda. Á sama tíma er ánægjulegt að sjá Hörpu stíga upp og taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Hluti af vegferð okkar á síðustu árum hefur verið að styrkja menningu og þróa mannauð félagsins og hefur Harpa verið í lykilhlutverki á þeirri vegferð,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.