Gerðar hafa verið breytingar á skipuriti Sjóvá og hefur Steinunn Guðjónsdóttir Hansen tekið við starfi framkvæmdastjóra Sjóvá-Almennra líftrygginga.
Áður heyrðu málefni Sjóvá-Almennra líftrygginga undir Hermann Björnsson, forstjóra Sjóvár, sem einnig var framkvæmdastjóri líftryggingafélagsins.
Steinunn hefur starfað hjá Sjóvá frá árinu 1999. Frá 2016 til loka febrúar 2025 bar hún ábyrgð á starfssviði tryggingastærðfræðings félaganna og var forstöðumaður áhættustýringar á árunum 2011-2015, en fyrir þann tíma var hún tryggingastærðfræðingur í hagdeild og tryggingastærðfræðingur Sjóvá Lífs.
Hún er með M.Sc. í tryggingastærðfræði frá Háskólanum í Amsterdam og M.Sc. í stærðfræði frá Háskólanum í Groningen.
Þórir Óskarsson tekur þá við starfssviði tryggingastærðfræðings Sjóvá og Sjóvá Líf af Steinunni. Hann er með Cand.Act. í tryggingastærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla og B.Sc. í stærðfræði frá Háskóla Íslands.
Þórir hefur starfað hjá Sjóvá síðan í desember 2020. Þar áður starfaði hann hjá VÍS hf. í 11 ár sem forstöðumaður áhættustýringar og síðar yfir starfssviði tryggingastærðfræðings. Áður vann Þórir sem tryggingastærðfræðingur hjá Købstædernes Forsikring í Danmörku í 3 ár.