Áki Barkarson hefur verið skipaður framkvæmdastjóri rekstrarþjónustu og upplýsingatæknimála Wise. Þá hefur Benedikt Rúnarsson janframt verið ráðinn öryggisstjóri fyrirtækisins.

Í tilkynningu segir að breytingarnar séu gerðar með það að markmiði að efla innviði, bæta þjónustuferla og tryggja öflugt og öruggt rekstrarumhverfi fyrir viðskiptavini

Áki hefur starfað hjá Wise frá árinu 2023, fyrst sem tæknistjóri (CTO). Áður en hann gekk til liðs við Wise starfaði hann hjá Advania í 16 ár, þar af síðast sem stjórnandi hjá rekstrarlausnum og svo sem ferlastjóri (CPO).

Frá komu sinni til Wise hefur Áki leitt umbótaverkefni sem snúa að styrkingu innviða, einföldun ferla og innleiðingu lausna sem styðja við betri þjónustu og áframhaldandi vöxt fyrirtækisins. Í nýrri stöðu sinni mun Áki bera ábyrgð á þróun og framkvæmd rekstrarþjónustusviðs Wise.

Benedikt kemur til Wise frá Mílu þar sem hann starfaði sem öryggis- og gæðastjóri og hefur áralanga reynslu af stjórnun, innleiðingu og eftirliti með öryggismálum.

Hann hefur byggt upp þekkingu á öryggismálum í upplýsingatækni og stafrænni innviðaþróun og hefur leitt fjölda verkefna sem stuðla að bættri áhættustýringu og öflugra öryggisumhverfi.

Benedikt hefur þá lokið sérnámi í ferilstjórnun á vegum Boston University og Duke University ásamt Lean námi hjá Háskólanum í Reykjavík auk ýmissa námskeiða tengdum upplýsingaöryggi

Hann mun stýra áframhaldandi þróun á öryggisstefnu Wise og vinna þvert á teymi til að styrkja vörur og þjónustu félagsins í síbreytilegu stafrænu landslagi.

„Það er mikill fengur að fá Áka inn í framkvæmdastjórn til að leiða rekstrarþjónustusvið Wise og Benedikt í öryggisstefnu okkar. Með þessum breytingum erum við að styrkja kjarnastarfsemi okkar og tryggja að við séum vel í stakk búin til að mæta síbreytilegum kröfum um rekstraröryggi, sveigjanleika og þjónustugæði,“ segir Jóhannes Helgi Guðjónsson, forstjóri Wise.