Brian Jeffrey Gross hefur verið ráðinn forstjóri fjártæknifyrirtækisins Teya. Brian var áður meðstofnandi Pineapple Payments í Pittsburgh í Bandaríkjunum, sem og hugbúnaðar- og greiðslulausnarinnar AthleteTrax.

Hann tekur við starfinu af Jónínu Gunnarsdóttur, sem hætti í síðustu viku en situr þó enn í stjórn fyrirtækisins. Jónína hafði þá tekið við af Reyni Grétarssyni í mars 2022 sem færði sig þá yfir í starf stjórnarformanns fjártæknifyrirtækisins.

Brian er Bandaríkjamaður, fæddur árið 1991 í Pittsburgh þar sem hann ólst upp en hann hefur verið búsettur hér á landi síðastliðin þrjú ár með fjölskyldu sinni.

Á Íslandi sat hann áður í stjórn SalesCloud og í stjórn Parka þar sem hann situr enn. Þá var hann stjórnarmaður hjá borgarleikhúsinu í Pittsburg auk þess sem hann var sjálfboðaliði hjá Big Brother/Big Sister-stuðningsnetinu.