Dómsmálaráðherra hefur skipað Jónas Þór Guðmundsson í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjaness frá og með 13. mars 2025.

Ráðherra hefur jafnframt sett Brynjar Níelsson í embætti dómara með starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjavíkur frá 14. febrúar – 31. desember 2025.

Ákvörðun dómsmálaráðherra byggir á niðurstöðu hæfnisnefndar sem mat þá Jónas og Brynjar hæfasta.

Jónas Þór lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1995 og öðlaðist málflutningsréttindi sem héraðsdómslögmaður árið 1997 og fyrir Hæstarétti Íslands árið 2009.

Að loknu embættisprófi starfaði Jónas Þór meðal annars sem kennslustjóri við lagadeild Háskóla Íslands 1995-1997 og sem lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 1998-1999 en frá þeim tíma hefur hann verið sjálfstætt starfandi lögmaður og flutt meðal annars dómsmál í héraði og fyrir Hæstarétti.

Jónas Þór hefur verið skipaður varadómandi við Endurupptökudóm frá ársbyrjun 2023. Af öðrum störfum Jónasar Þórs má nefna að hann sat í kjararáði árin 2006-2018, þar af sem formaður síðustu fjögur árin, sat í stjórn Lögmannafélags Íslands 2010-2015, þar af sem formaður 2012-2015 og hann var oddviti yfirkjörstjórnar Suðvesturkjördæmis 2007-2016.

Þá var Jónas Þór stjórnarformaður Landsvirkjunar 2014-2024. Jónas Þór hefur einnig sinnt stundakennslu við lagadeildir Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.

Brynjar Níelsson lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1986 og öðlaðist málflutningsréttindi sem héraðsdómslögmaður 1989 og fyrir Hæstarétti Íslands 1998.

Árin 1986-1991 starfaði hann sem fulltrúi hjá yfirborgarfógetanum í Reykjavík en sem sjálfstætt starfandi lögmaður árin 1991-2015. Brynjar var kjörinn til setu á Alþingi árið 2013 og var alþingismaður samfleytt til ársins 2021, þar af um tíma sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Frá desember 2021 til júní 2022 starfaði hann sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, en sem séfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá þeim tíma til júlí 2024. Af öðrum störfum Brynjars má nefna að hann sat 2010-2012 í dómnefnd til að meta hæfni umsækjenda um embætti héraðs- og hæstaréttardómara, átti sæti í yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis suður 2005-2009 og var formaður Lögmannafélags Íslands árin 2010-2012. Þá hefur Brynjar sinnt stundakennslu við Háskólann á Bifröst og flutt fræðilega fyrirlestra við lagadeildir Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri.