Brynjar Hafþórsson hefur verið ráðinn sem nýr framkvæmdastjóri Útilífs. Hann gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra útivistarverslunarinnar Alpanna.

Eftir að Útilíf keypti Alpana í lok árs 2023 tók Brynjar við sem framkvæmdastjóri sölu og rekstrar hjá Útilíf.

Brynjar er með MBM gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og hefur brennandi áhuga á útivist og hreyfingu. Hann nýtir hvert tækifæri til að stunda hlaup, skíði og göngur sem endurspeglast í hans nálgun og sýn á framtíð Útilífs.

„Ráðning Brynjars er liður í áframhaldandi umbreytingum hjá Útilíf, en frá því að nýir eigendur tóku við félaginu hefur verið unnið markvisst að því að skerpa á vörumerkjum og markaðsstefnu,“ segir í tilkynningu Útilífs.

„Opnun nýrrar útivistar- og lífsstílsverslunar í Skeifunni og North Face verslunarinnar í Austurhöfn eru skýr dæmi um nýja stefnu félagsins sem sérhæfir sig í útivist og lífsstíl.“

„Sérstaða og skýr aðgreining á markaði skiptir öllu máli. Við leggjum áherslu á sterkustu vörumerkin í greininni – Salomon, North Face, Rossignol og Atomic og það mun endurspeglast í endurbættri verslun í Kringlunni,“ segir Brynjar.

Hann bætir við að Kringlan og Skeifan verði með svipað vöruúrval, þó Skeifan verði áfram miðstöð fyrir skíðavörur og þjónustu við skíðafólk.

Elín Tinna Logadóttir, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra Útilífs, hefur ákveðið að hverfa til nýrra verkefna og hafi lokið störfum hjá félaginu. Í tilkynningu kemur fram að stjórn þakki Elínu Tinnu fyrir hennar störf.