Origo hefur ráðið Brynjólf Einar Sigmarsson sem framkvæmdastjóra fjármála hjá Origo og hefur hann þegar hafið störf. Brynjólfur hóf störf hjá Nýherja, forvera Origo, í október 2011 og hefur á þeim tíma sinnt fjölbreyttum störfum innan fjármálasviðs félagsins.

Hann starfaði fyrst sem sérfræðingur í hagdeild áður en hann tók við starfi innkaupastjóra. Síðustu ár hefur Brynjólfur leitt reikningshald félagsins sem forstöðumaður.

„Mannauður er mikilvægasta eign fyrirtækja í okkar geira og það er frábært að sjá lykilfólk okkar vaxa og dafna í starfi og takast á við aukna ábyrgð og ný hlutverk. Brynjólfur stígur inn í hlutverk fjármálastjóra á tíma mikilla umbreytinga í rekstri Origo og tengdra félaga og leiðir m.a. fjármál Skyggnis Eignarhaldsfélags, sem tók til starfa í nóvember síðastliðnum,” segir Ari Daníelsson forstjóri Origo.

Brynjólfur lauk B.Sc-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hann er einnig með M.Sc-gráðu í fjármálum og stefnumótun frá Copenhagen Business School og M.Sc-gráðu í hagfræði frá Kaupmannahafnarháskóla.

„Eftir að hafa sinnt fjölbreyttum störfum innan félagsins undanfarin 13 ár er ég þakklátur því trausti sem mér er sýnt að fá að leiða fjármál Origo og tengdra félaga. Þetta er spennandi tími til að stíga inn í framkvæmdastjórn, taka þátt í sókninni sem er fram undan og halda áfram að sinna fjölbreyttum verkefnum með því reynslumikla og trausta teymi sem starfar á fjármálasviði,“ segir Brynjólfur Einar.