Hönnunar- og hugbúnaðarstofan Aranja hefur ráðið Camillu Rut og Fanney Kristjánsdóttur til að styrkja bæði þróunar- og markaðsstarf fyrirtækisins og hafa þær báðar þegar hafið störf.
Camilla Rut tekur við stöðu verkefnastjóra markaðsmála, þar sem hún mun leiða markaðssetningu afurða Aranja til að mynda óskalista appinu Óskari og auðkenningar lausninni Kenni ásamt að styðja við önnur dótturfélög Aranja.
Hún sérhæfir sig í stafrænni markaðssetningu með áherslu á samfélagsmiðla og lauk námi í stafrænni markaðsfræði hjá Sahara Academy. Einnig hefur Camilla áralanga reynslu af markaðssetningu á samfélagsmiðlum og efnisgerð og hefur unnið með fjölda vörumerkja við að auka sýnileika þeirra á stafrænum miðlum.
Fanney Kristjánsdóttir hefur verið ráðin sem forritari hjá Aranja. Fanney bætist við þróunarteymið með ferska sýn og öfluga tæknilega færni, sem styður við áframhaldandi nýsköpun fyrirtækisins.
Hún er reynslumikill tölvunarfræðingur, hún lauk meistaragráðu í tölvunarfræði frá Oxford háskóla árið 2019. Fanney kemur til Aranja frá Landsneti þar sem hún leiddi meðal annars mótun á nýrri tæknistefnu Landsnets. Þar áður starfaði Fanney sem tæknilegur teymisleiðtogi hjá danska hugbúnaðarhúsinu Devoteam Creative Tech.
„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá þær Camillu og Fanney til liðs við okkur og munu þær styrkja og breikka þjónustuframboð okkar enn frekar,” segir Sævar Már Atlason framkvæmdastjóri Aranja.