Tveir nýjir stjórnendaráðgjafar hafa gengið til liðs við Advania. Þær Charlotte Aström og Anna Þórdís Rafnsdóttir hafa verið ráðnar inn í ráðgjafateymið Advania Advice.
Teymið veitir stjórnendum fyrirtækja ráðgjöf um upplýsingatækni, stafræna umbreytingu, hagræðingu innviða og innra skipulagi fyrirtækja.
Charlotte er sænsk en hefur starfað á Íslandi í rúm fimm ár. Hún hefur víðtæka reynslu af stefnumótun og viðskiptaþróun frá Svíþjóð, Bretlandi, Frakklandi og Danmörku. Þá hefur hún sérhæft sig í stjórnun viðskiptatengsla (CRM) og farið fyrir þeirri vinnu hjá Arion banka og síðast hjá Össurri.
Charlotte hefur meira en þrettán ára starfsreynslu af vöruþróun og stefnumótun ásamt stjórnunarreynslu frá alþjóðlegum fyrirtækjum. Til að mynda hefur hún leitt verkefni á sviði stafrænnnar umbreytingar fyrir DFDS A/S sem er stærsta flutningafyrirtæki í Norður Evrópu. Hún er uppalin í Gautaborg, menntaði sig í París og hefur einnig starfað hjá fjárfestingabanka í London.
Anna Þórdís hefur starfað sem lögmaður á Mörkinni lögmannsstofu í málum sem meðal annars varða persónuvernd, samninga og stjórnarhætti fyrirtækja. Síðastliðin ár hefur hún tekið þátt í og stýrt verkefnum í stafrænni stefnumótun fyrirtækja hjá IESE Business School í Barcelona. Hún var jafnframt einn af stofnendum upplýsinga- og skjalastjórnunarfyrirtækisins Vergo.
Anna Þórdís er með BA og Magister Juris í lögfræði frá HÍ ásamt LL.M. gráðu í viðskiptarétti frá Cardozo lagaskólanum í Yeshiva háskólanum í New York.
Svavar H. Viðarsson leiðir ráðgjafateymið en hann hefur meira en 10 ára reynslu af stjórnendaráðgjöf og innleiðingu á stafrænni umbreytingu. Hann hefur meðal annars unnið með LEGO, Coca Cola og JYSK. Svavar hefur aðstoðað fyrirtæki á Íslandi og í Noregi við stafræna umbreytingu. Vegna örra breytinga á rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja og mikillar eftirspurnar eftir ráðgjöf um stafræna stefnumótun verður ráðgjafateymi Advania eflt enn frekar með haustinu.