Coca-Cola á Íslandi hefur nýlega ráðið tvo nýja framkvæmdastjóra, þær Andreu Lilju Ottósdóttur í starf framkvæmdastjóra mannauðs og Sigrúnu Hallgrímsdóttur í starf framkvæmdastjóra vörustjórnunarsviðs.

Andrea Lilja Ottósdóttir hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra mannauðs hjá Coca-Cola Europacific Partners á Íslandi (Coca-Cola á Íslandi) og hefur þegar hafið störf.

„Það er ómetanlegt tækifæri að fá að stíga inn í nýtt hlutverk og fá tækifæri til að þróast hjá fyrirtækinu. Fram undan eru spennandi verkefni og uppbygging sem ég er full tilhlökkunar að takast á við,“ segir Andrea Lilja.

Sigrún Hallgrímsdóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra vörustjórnunarsviðs. Sigrún leiddi vörustjórnunarsvið á árunum 2020-2022, áður en hún flutti til Bahrein og starfaði þar hjá Gulf Coca-Cola Beverages.

Síðan hún flutti til Íslands aftur hefur hún starfað hjá BL og leitt þar vöru- og þjónustusvið. Áður starfaði Sigrún hjá Landspítalanum og Marel og hefur hún mikla reynslu af því að leiða teymi og stýra verkefnum og umbótum. Hún er með BS-próf í matvælafræði frá HÍ og meistaragráðu í verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands.

„Það verður gaman að hefja aftur störf hjá Coca-Cola á Íslandi og vinna áfram með þau sterku vörumerki sem Íslendingar elska, bæði alþjóðleg og íslensk. Hjá CCEP starfar sterkt teymi og er ég þakklát fyrir að fá að leiða það öfluga fólk sem starfar á vörustjórnunarsviði,“ segir Sigrún.

„Ég er gríðarlega ánægð að fá Andreu og Sigrúnu inn í framkvæmdastjórn CCEP. Þær eru báðar öflugir og reynslumiklir leiðtogar, þekkja vel rekstur fyrirtækisins og þarfir viðskiptavina og starfsfólks. Þær eru frábær viðbót við framkvæmdastjórn fyrirtækisins og ég er full tilhlökkunar að takast á við verkefni framtíðarinnar ásamt þeim og okkar góða starfsfólki,“ segir Anna Regína Björnsdóttir forstjóri Coca-Cola á Íslandi.