Íslenska hátæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) hlaut þann 12. desember síðastliðinn Nýsköpunarverðlaun Samorku fyrir framúrskarandi lausnir á sviði orku og veitna.

Verðlaunin voru afhent af Áslaugu Örnu Sigurbjörndóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við athöfn í Grósku. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem hafa sýnt fram á nýsköpun og grænar lausnir í þessum mikilvægu geirum.

Emissions-to-liquids (ETL) tækni CRI breytir kolefnisútblæstri og vetni í metanól, sjálfbæran orkugjafa sem nýtist meðal annars í eldsneyti og efnavinnslu. Lausnir fyrirtækisins styðja með beinum hætti við hringrásarhagkerfið og orkuskipti á heimsvísu.

Í tilkynningu segir að síðan fyrirtækið þróaði og sannreyndi tækni sína í verksmiðju sinni í Svartsengi á Íslandi hafi það náð miklum árangri á heimsvísu.

Nú þegar hafa verið gangsettar stærstu verksmiðjur sinnar tegundar í heimi sem ganga á tækni félagsins og nýlega skrifaði félagið undir tímamótasamning við Tianying Group um hönnun stærstu rafmetanólverksmiðju heims, sem áætlað er að verði gangsett í lok árs 2025. Með þessari verksmiðju verða framleiðslueiningar sem keyra á tækni CRI orðnar þrjár, sem samanlagt gætu framleitt nægt metanól til að knýja allan skipaflota Íslands.

„Við erum stolt af því að taka við viðurkenningu fyrir tækni okkar og nýsköpun. Sem leiðandi fyrirtæki á okkar sviði, erum við staðráðin í því að halda áfram að vaxa og þróa sjálfbærar orkulausnir, styðja við orkuskiptin og hringrásarhagkerfið,“ segir Lotte Rosenberg, framkvæmdastjóri CRI.