Dagný Fjóla Jóhannsdóttir hefur verið ráðin sviðsstjóri nýs hugverka- og stjórnsýslusviðs hjá Hugverkastofunni. Hún mun bera ábyrgð á stjórnun og daglegum rekstri sviðsins en þar fer fram efnisleg meðferð umsókna og annarra erinda í tengslum við skráningu á vörumerkjum, einkaleyfum og hönnun. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Dagný hefur starfað sem lögfræðingur hjá Hugverkastofunni frá árinu 2017. Á árunum 2020-2022 var hún í starfsvist hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) í Alicante á Spáni. Þar áður starfaði hún hjá Tego hugverkaráðgjöf.

Dagný útskrifaðist með meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2014 og hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum árið 2017. Hún stundar nú meistaranám í nýsköpun og tæknirétti í Háskólanum við Edinborg samhliða starfi sínu hjá Hugverkastofunni.

Um Hugverkastofuna

Hlutverk Hugverkastofunnar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Stofnunin veitir einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði og vinnur að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi. Hugverkastofan heyrir undir ráðuneyti háskóla, nýsköpunar og iðnaðar.