Berjaya Coffee Iceland hefur ráðið Daníel Kára Stefánsson í stöðu framkvæmdastjóra Starbucks á Íslandi. Félagið, sem er dótturfélag malasíska félagsins Berjaya Food Berhad, opnar sitt fyrsta kaffihús undir merkjum Starbucks hér á landi í maí.
Daníel býr yfir víðtækri reynslu innan veitinga- og þjónustugeirans og starfaði síðast sem rekstrarstjóri SSP á Íslandi, félagi sem sérhæfir sig í veitingarekstri á flugvöllum, þar sem hann m.a. sinnti rekstri Jómfrúarinnar og Elda Bistro á Keflavíkurflugvelli.
Að auki hefur Daníel starfað hjá Joe & The Juice á Íslandi og Domino’s Pizza á Íslandi en hann er með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands.
Daníel segir afar spennandi að geta loks kynnt Íslendinga fyrir Starbucks og að ferðalagið fram að opnun kaffihúsanna sé búið að vera afar lærdómsríkt, þar sem hann hafi fylgst með vexti Starbucks í mörg ár.
Í tilkynningu segir að allir kaffibarþjónar sem verði ráðnir hér á landi hafi fengið ítarlega þjálfun til að veita gestum hina svokölluðu Starbucks-upplifun í samræmi við alþjóðlega staðla fyrirtækisins.
„Ég hlakka til að sjá fyrstu Starbucks kaffihúsin á Íslandi opna dyr sínar, eftir margra mánaða samstarf og vinnu hjá teyminu okkar, bæði hér á Íslandi og í Malasíu. Ég vona að reynsla mín úr veitinga- og þjónustugeiranum muni nýtast vel hjá Starbucks á Íslandi, en það sem skiptir mestu máli er hversu ánægður ég er að fá að starfa með svo metnaðarfullu og reyndu starfsfólki,“ segir Daníel.