Diljá Ragnarsdóttir lögfræðingur hefur verið ráðin aðstoðarmaður Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Hún hefur störf á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara í Ráðhúsi Reykjavíkur í janúar næstkomandi, að því er kemur fram í tilkynningu á vef borgarinnar.

Diljá starfaði hjá LMG lögmönnum frá 2019 til 2022. Hún var kosningastjóri Samfylkingarinnar í Reykjavík í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Um mitt ár 2022 hóf hún störf hjá Marel.

Diljá útskrifaðist með BA gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík vorið 2017 og lauk svo mastersnámi þaðan árið 2021.

Pétur Krogh Ólafsson, sem hefur starfað sem aðstoðarmaður Dags frá árinu 2014, var á dögunum ráðinn þróunar- og viðskiptastjóri Veitna, dótturfélags Reykjavíkur.