Lóa Fatou Einarsdóttir hefur verið ráðin sem forstöðumaður rekstrarsviðs íslenska matvælafyrirtækisins Good Good. Fyrirtækið byggir á íslensku hugviti, hönnun og markaðsstarfi og eru vörur þess nú seldar í rúmlega 12.500 verslunum í 18 löndum.
Öll vöruþróun, sala og markaðsstarf, stýring aðfangakeðjunnar og gæðamál fara fram innan fyrirtækisins en framleiðslu og dreifingu er útvistað. „Nýja starfið felst í því að stýra aðfangakeðjunni og hafa yfirumsjón með allri áætlanagerð, allt frá framleiðslu- til söluáætlana. Að auki mun ég leiða gæðamál og þjónustu við viðskiptavini - mjög fjölbreytt," segir Lóa Fatou.
Lóa Fatou kemur til Good Good frá 66°Norður en þetta er ekki frumraun hennar í matvælageiranum þar sem hún starfaði áður hjá Nóa Siríusi. „Í mínum fyrri störfum hafa fyrirtækin verið með sína eigin framleiðslu sem kemur svo inn í vöruhúsin. Þetta er ólíkt en mjög heillandi viðskiptamódel."
Í starfi sínu hjá 66°Norður starfaði hún fyrst sem verkefnastjóri á skrifstofu forstjóra. Þar kom hún að áætlanagerð og innleiðingu Beyond Budgeting aðferðafræðinnar. Einnig hefur hún unnið mikið með straumlínustjórnunaraðferðafræði til þess að auka hagræðingu ferla. „Í mínu fyrra starfi var ég að reka vöruhús, þó við séum ekki með vöruhús hjá Good Good þá hef ég djúpan skilning á því hvernig þeir ferlar virka sem er mjög gagnlegt."
Lóa Fatou er gift Pétri Erni Svanssyni sálfræðingi og eiga þau saman tvö börn - þriggja ára stelpu og sjö ára strák. Þau eyða miklum tíma saman og borða reglulega með fjölskyldunni hennar og tengdafjölskylunni.
„Okkur finnst mjög gaman að halda matarboð og spila. Við spilum allskonar borðspil, til dæmis Catan eða Partners. Í brúðkaupinu okkar var gert grín að því að við værum alltaf að bjóða fólki í mat til að hafa afsökun fyrir því að draga upp spilin og rústa þeim."
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .