Edda Blumenstein var í dag kjörin í stjórn Festi, móðurfélags Krónunnar, N1, Elko og Lyfju. Hún tekur sæti í stjórn smásölufyrirtækisins af Margréti Guðmundsdóttir sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnasetu.
Sex einstaklingar, þar af fjórir sitjandi stjórnarmenn, voru í framboði til stjórnar Festi á aðalfundi félagsins í dag. Tilnefningarnefnd Festi hafði lagt til að Edda eða Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni í Íslandsbanka, myndu taka sæti í stjórninni í stað Margrétar.
Eftirfarandi einstaklingar hlutu kjör í stjórnina á aðalfundinum sem hófst kl. 10 í dag:
- Guðjón Reynisson, stjórnarformaður
- Sigurlína Ingvarsdóttir, varaformaður stjórnar
- Guðjón Auðunsson, stjórnarmaður
- Hjörleifur Pálsson, stjórnarmaður
- Edda Blumenstein
Í tilkynningu Festi um niðurstöður aðalfundarins kemur fram að stjórnin hafi skipt með sér verkum. Hjörleifur Pálsson, sem tók fyrst sæti í stjórn Festi sumarið 2022, verður formaður stjórnar.
Guðjón Reynisson verður varaformaður stjórnar en hann hefur gegnt stjórnarformennsku hjá félaginu frá árinu 2022. Hann tók fyrst sæti í stjórn Festi árið 2014.
Edda Blumenstein starfar í dag sem lektor og fagstjóri BSc í verslun og þjónustu við Háskólann á Bifröst, einnig er hún eigandi og ráðgjafi beOmni ráðgjafar
Á árunum 2021 til 2023 starfaði Edda sem framkvæmdastjóri framþróunar verslunar og viðskiptavina hjá BYKO, árin 2012-2014 var hún framkvæmdastjóri Smáratívolí, árin 2007 til 2012 deildarstjóri markaðs- og viðskiptaþórunar hjá 14 Iceparma og sem vörumerkjastjóri Coca-Cola hjá Vífilfelli árin 1999-2007.
Hún er stjórnarmaður í Útilíf og Ormsson, SRX og TT3. Edda var búin að tilkynna fyrir kjörið að hún hygðist segja sig úr stjórn TT3/SRX/Ormsson yrði hún kjörin í stjórn Festi. Þá hefur hún einnig setið í stjórn Rannsóknarseturs verslunarinnar og stafrænu ráðgjafarráði SVÞ.