Elfa Arnardóttir hefur verið ráðin yfirmaður vörustýringar hjá Nova. Hún mun m.a. bera ábyrgð á vöruframboði Nova, sníða það að þörfum markaðarins og leiða stefnumótun, stefnumótandi verkefni og framtíðarsýn innan vöruþróunar fyrirtækisins. Elfa býr yfir mikilli reynslu á sviði vörustýringar, viðskiptaþróunar og markaðsmála, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Elfa Arnardóttir, nýr yfirmaður vörustýringar Nova:

„Nova er á spennandi vegferð þegar kemur að vöruþróun og býr yfir sterkum tæknilegum innviðum og þekkingu sem við munum nýta áfram til þess að styrkja núverandi vöruframboð. Ég hef alla tíð haft ástríðu fyrir nýsköpun og mikinn áhuga á að finna leiðir til að mæta þörfum viðskiptavina ásamt því að bjóða upp á einfaldar en jafnframt virðisaukandi lausnir, en í slíkum aðstæðum skiptir höfuð máli að búa til besta liðið. Teymið býr yfir öflugri þekkingu á fjarskiptaþjónustu og viðskiptavinum markaðarins og er þar með í góðri stöðu til þess að innleiða og nýta þá tækni sem er í boði hverju sinni til að búa til sterkt vöruframboð sem skarar fram úr. Ég hlakka mikið til þeirrar vegferðar sem framundan er hjá Nova og en spennt að takast á við öll þau verkefni sem framundan eru.“

Áður starfaði Elfa m.a. hjá Marel sem vöru- og markaðsstjóri og þar á undan hjá Icepharma sem markaðsstjóri fyrir Nike á Íslandi. Einnig hefur hún reynslu af störfum erlendis, en eftir að hafa lokið meistaragráðu frá Háskólanum í Árósum í Danmörku starfaði hún fyrir Lego Group sem vörumerkjastjóri með áherslu á Norðurlöndin ásamt Eystrasaltslöndunum, og vann með þeim að meistaraverkefni sínu.

Elfa situr í stjórn Exempla, samtökum sem byggja upp og styrkja umræður, fræðslu og tengslamyndun fyrir konur úr öllum geirum þvert á samfélagið.