Elísa Viðarsdóttir hefur verið ráðin sem fræðslu- og þróunarstjóri hjá íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Feel Iceland, sem þróaði ásamt Ölgerðinni drykkinn Collab.
Elísa er með BSc gráðu í næringarfræði og MSc gráðu í næringar- og matvælafræði frá Háskóla Íslands en einnig gaf hún út bókina Næringin skapar meistarann árið 2021. Elísa hefur mikla reynslu úr íþróttum en hún hefur spilað 52 landsleiki í fótbolta ásamt því að spila erlendis og vera fyrirliði í Íslands- og bikarmeistaraliði Vals.
Elísa er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum, byrjaði þar ung að vinna í fiskvinnslu og þekkir vel meðhöndlun á sjávarfangi allt frá því að fiskurinn er veiddur og þar til hann er pakkaður og seldur til neytenda.
Hún hefur að undanförnum árum starfað í gæðamálum og tekið að sér næringartengd verkefni í formi fyrirlestra og ráðgjafar. Elísa starfaði áður hjá Kjarnavörum hf. og sá þar um gæðamál.
Feel Iceland sérhæfir sig í þróun á fæðubótaefnum sem innihalda kollagen prótein úr íslensku fiskroði sem áður fyrr var hent og er nú með fjórar vörur á markaði. Félagið þróaði ásamt Ölgerðinni drykkinn Collab en eitt af aðalhráefnunum drykksins er kollagen prótein og hefur hann verið í framleiðslu síðan 2019. Félagið var stofnað árið 2013 af þeim Hrönn Margréti Magnúsdóttur og Kristínu Ýr Pétursdóttur.
„Það er mikill fengur að fá Elísu til liðs við okkur en hún hefur mikla reynslu og brennur fyrir að hjálpa fólki að ná tökum á næringu sinni með heilbrigðum hætti. Elísa mun koma sterk inn í frekari vöruþróun Feel Iceland þar sem einblínt er á að nýta áður vannýtt hráefni og minnka þannig sóun. Ráðning hennar er einnig liður í frekari sókn félagsins á erlenda markaði“, segir Hrönn Margrét Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Feel Iceland og einn af stofnendum félagsins.