Elsa Harðardóttir hefur verið ráðin rekstrarstjóri hjá Eventum, viðburðafyrirtæki sem sérhæfir sig í skipulagningu viðburða, en hún hefur starfað sem viðburðastjóri hjá fyrirtækinu síðan 2023.
Í tilkynningu segir að Elsa hafi verið lykilþátttakandi í hraðri uppbyggingu og vexti fyrirtækisins og að með ráðningu hennar styrki Eventum enn frekar innviði sína.
Elsa hóf störf í byrjun maí og mun hún stýra stefnumótun ásamt því að bera ábyrgð á daglegum rekstri fyrirtækisins.
„Það er gríðarlega spennandi að fá þetta tækifæri. Við höfum byggt upp öflugt teymi og þjónustu síðustu ár og ég hlakka til að halda áfram að þróa fyrirtækið með frábæru fólki,“ segir Elsa.
Anna Björk Árnadóttir framkvæmdastjóri Eventum segir að Elsa hafi verið ómetanlegur liðsfélagi og er fullviss um að reynsla hennar og leiðtogahæfileikar muni styrkja Eventum enn frekar.