„Verkefni mitt hjá Eimi er að finna og tengja saman fólk með nýsköpunarhugmyndir um nýtingu á orku og hringrásarkerfum en ég hef lengi brunnið fyrir nýsköpun. Eimur er stuðningsaðili fyrir þessi verkefni og tengir frumkvöðlana við fagfólk á svæðinu til að hraða uppbyggingarferli nýsköpunarverkefna hér á svæðinu,“ segir Sesselja Ingibjörg Barðdal, nýráðinn framkvæmdastjóri Eims, samstarfvettvangs orkufyrirtækja og sveitarfélaga á Norðausturlandi.

„Jafnframt eigum við Ottó Elíasson sem ráðinn er með mér inn í verkefnið að sækja meira fjármagn til verkefnanna. Hann verður tengiliðurinn við erlenda sjóði sem og erlenda og íslenska háskóla, sem einnig er stefnan að tengjast betur við.“

Sesselja hefur sjálf verið að sinna nýsköpunarverkefni um stofnun Mjólkurbaða með nýtingu heita vatnsins úr Vaðlaheiðargöngum sem hún þróaði í MBA námi sínu, en jafnframt hefur hún og maður hennar, Einar Örn Aðalsteinsson, rekið Kaffi Kú í Eyjafjarðarsveit, hann tekur nú alfarið yfir bæði verkefnin.

„Hann er bóndasonurinn og elskar að vera í sveitalífinu. Við kynntumst á Sauðárkróki þegar hann var að spila körfubolta með Tindastól og leiddist ég með honum hingað á Akureyri. Hér fór ég að vinna hjá Hótel KEA þar sem frumkvöðlarnir sem að því og fleiri verkefnum á Akureyri standa hvöttu mig til að fara að læra þjóninn. Ég vissi ekki hvað ég vildi gera þá, en ég sé alls ekki eftir því að fara í iðnnám því það kennir manni að vinna og sýna seiglu,“ segir Sesselja.

„Ég fór svo til Reykjavíkur og vann þar á mörgum stöðum meðan ég var að læra, flutti svo til Frakklands þar sem ég vann á vínbúgörðum í eitt ár enda hef ég mikinn áhuga á vínum. Svo tók ég við sem hótelstjóri á Gíg við Mývatn í eitt sumar og síðan vann ég með þeim Hebu og Sigga sem eiga veitingastaðina Strikið og Bryggjuna í nokkur ár.

Þegar ég eignaðist fyrsta barnið mitt langaði mig að prufa að fara í háskólann og fór ég því í lögfræði sem var virkilega skemmtilegt. Ég fann samt að mig langaði ekkert endilega að verða lögfræðingur heldur langaði mig að fara í einhvers konar viðskiptafræðitengt stjórnendanám og dreif ég mig því beint í MBA eftir lögfræðina,“ segir Sesselja.

„Sesselja og Einar Örn eiga þrjár stelpur á aldrinum tólf, átta og að verða eins og hálfs árs. „Síðasta ár hefur örugglega verið eitt erfiðasta í mínu lífi því yngsta stúlkan fæddist með heilkenni sem mun kalla á margar skurðaðgerðir, svo lífið umturnaðist á einum degi, á sama tíma og ég var að vinna að útskrift og basla við að setja upp mitt eigið fyrirtæki.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .