Erla Símonardóttir hefur verið ráðin rekstrarstjóri hjá Advise Business Monitor. Hún kemur inn í teymið með víðtæka reynslu af fjármála- og verkefnastjórnun.

Síðastliðin ár hefur Erla verið fjármálastjóri Búseta þar sem hún bar m.a. ábyrgð á fjárstýringu, eignastýringu og fjármögnun nýbygginga verkefna. Áður vann hún m.a. hjá Deloitte og slitastjórn Kaupþings.

Erla er með meistaragráðu í reikningshaldi og endurskoðun (M.Acc) frá Háskóla Íslands.

„Ég er spennt að vera hluti af metnaðarfullu teymi Advise. Það eru spennandi tímar framundan þar sem fyrirtækið er í örum vexti innanlands og stefnir á erlenda markaði innan tíðar,“ segir Erla.

Advise er íslensk hugbúnaðarlausn á sviði viðskiptagreindar sem veitir stjórnendum bætta yfirsýn og innsýn í rekstur sinn með rauntíma- fjárhagsgreiningum.

„Það er mikill fengur að fá Erlu til liðs við Advise, hún hefur yfirgripsmikla reynslu af fjármálastjórn og rekstri fyrirtækja og hefur því góðan skilning á viðfangsefnum viðskiptavina okkar,“ segir Mikael Arnarson, framkvæmdastjóri Advise.