Eva Ýr Gunnlaugsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alvotech. Hún kemur til Alvotech frá Landspítala þar sem hún hefur starfað sem deildarstjóri mannauðsmála síðan í ársbyrjun 2022. Eva starfaði meðal annars í tæp sjö ár við mannauðsmál hjá Össuri og þar áður hjá fjarskiptafyrirtækinu Nova.

Eva er með MS gráðu í mannauðsstjórnun og BS gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands en hún er um þessar mundir að ljúka MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur einnig lokið prófi í stjórnendamarkþjálfun frá Háskólanum í Reykjavík.

„Ég er afar spennt fyrir því að taka þátt í uppbyggingu Alvotech og þeirri spennandi vegferð sem fyrirtækið er sannarlega á. Alvotech starfar í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og starfsmannahópurinn er einstaklega fjölbreyttur. Þessari uppbyggingu fylgja skemmtilegar áskoranir og miklir möguleikar,“ segir Eva.

Sigríður Elín Guðlaugsdóttir hefur gengt starfi mannauðsstjóra Alvotech undanfarin þrjú ár, en lætur nú af störfum til að sinna öðrum verkefnum. Hún leiddi innleiðingu verkferla og kerfa á sviði mannauðsmála, til að styðja við vöxt fyrirtækisins og skráningu þess á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum og á Íslandi. Þá stýrði hún einnig undirbúningi og innleiðingu jafnlaunavottunar og hefur lagt áherslu á að útfæra jafnréttisstefnu fyrir allt starfsfólk óháð búsetu.

„Það var mikill heiður að fá að taka þátt í þessari öru uppbyggingu og umbreytingu. Sérstaklega er ég stolt af árangri okkar við að innleiða skýra áætlun sem festir jafnrétti í sessi og eflir fjölbreytni í starfsmannahópnum. Ég hlakka svo sannarlega til að fylgjast áfram með Alvotech dafna og hafa jákvæð áhrif á samfélagið,“ segir Sigríður.