Hugbúnaðarfyrirtækið Expectus hefur bætt við sig starfsfólki á undanförnum misserum. Nýir starfsmenn eru þau Benedikt Benediktsson ráðgjafi, Garðar Benediktsson ráðgjafi, Kristján Eldur Aronsson ráðgjafi, Elmar Ingi Bjarnason kerfisstjóri, Thomas Perks ráðgjafi og Natalia Lea Georgsdóttir ráðskona.

Expectus sérhæfir sig í að veita fyrirtækjum ráðgjöf við innleiðingu gagnadrifinnar menningar og nýtingu upplýsingatækni til að ná mælanlegum árangri í rekstri.

Benedikt Benediktsson er með Bachelor-gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og framhaldsgráðu í fjármálum frá Háskóla Íslands. Samhliða námi hefur hann verið ráðgjafi hjá Kilroy ferðaskrifstofu og rekið sitt eigið fyrirtæki, BMX BRÓS.

Garðar Benediktsson er tölvunarfræðingur að mennt með B.Sc.-gráðu frá Embry-Riddle Aeronautical University í Flórída og er að klára mastersgráðu frá Nova School of Business and Economics í Portúgal. Garðar hefur verið sumarstarfsmaður hjá Íslandsbanka undanfarin fjögur ár, bæði í einstaklings- og fyrirtækjadeild.

Kristján Eldur Aronsson starfar sem ráðgjafi í viðskiptagreind hjá Expectus. Hann hefur lokið mastersnámi í fjármálaverkfræði og áhættustýringu frá Imperial College í London. Kristján hefur lokið B.Sc.-gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands þar sem hann kenndi einnig í stoðtímum í stærðfræðigreiningu, línulegri algebru og eðlisfræði.

Elmar Ingi Bjarnason er nýr kerfisstjóri Expectus. Elmar kemur frá Landsbanknum og hefur reynslu af vélbúnaðarumsjón. Elmar hefur lokið CCNA- og MCSA-námskeiðum frá NTV-skólanum (Nýi tölvu- og viðskiptaskólinn).

Thomas Perks útskrifaðist úr hagfræði frá University of Leicester í Englandi árið 2016. Hann stundar nú MBA-nám við Háskólann í Reykjavík sem snýr m.a. að gagnagreiningu, endurskoðun, fjármálum, stefnumótun og mannauðsstjórnun. Thomas kemur til með að útskrifast frá HR vorið 2023.

Natalia Lea Georgsdóttir hefur tekið að sér ráðskonuhlutverk hjá Expectus. Auk reynslu úr viðskiptalífinu er Natalia áhugaljósmyndari. Hjá Expectus mun hún halda vel utan um starfsmannahópinn og huga að líðan fólks á vinnustaðnum.

„Það er mikill fengur fyrir Expectus að fá til liðs við okkur allt þetta reynslumikla fólk og við hlökkum mikið til að takast á við nýjar áskoranir og áframhaldandi vöxt fyrirtækisins með öflugri liðsheild en nokkru sinni,“ segir Sindri Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Expectus.