Eyjólfur Árni Rafnsson hefur boðið sig fram til stjórnar Eikar á ný en fasteignafélagið hafði tilkynnti í lok janúar að hann myndi ekki bjóða sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu. Eyjólfur Árni tók sæti í stjórn Eikar árið 2015 og hefur verið stjórnarformaður frá árinu 2016. Þetta kemur fram í viðauka við skýrslu tilnefningarnefndar sem birtur var í morgun.
„Það er mat tilnefningarnefndar að það væri mikill styrkur fyrir stjórn Eikar fasteignafélags að Eyjólfur Árni Rafnsson sæti áfram í henni,“ segir í viðaukanum.
Tilnefningarnefndin hafði upphaflega lagt til að Bjarni K. Þorvarðarson og Reynir Sævarsson yrðu kjörnir í stjórnina í stað Eyjólfs Árna og Kristínar Friðgeirsdóttur sem gáfu ekki kost á sér. Stuttu eftir að skýrsla nefndarinnar var birt, tilkynnti Eik um að Reynir hefði dregið framboð sitt til baka og kallaði því eftir framboðum fyrir aðalfund félagsins sem fer fram þann 5. apríl.
Í viðaukanum sem birtist í morgun kemur fram að núverandi stjórnarmenn auk Bjarna séu einu frambjóðendurnir til stjórar Eikar að svo stöddu en frestur til að tilkynna um framboð lýkur kl. 15 á þriðjudaginn næsta, 29. mars.
Nefndin leggur því til að stjórn Eikar verði skipuð af:
- Eyjólfi Árna Rafnssyni, stjórnarformanni
- Guðrúnu Bergsteinsdóttur, núverandi varaformanni stjórnar
- Hersi Sigurgeirssyni
- Ragnheiði H. Harðardóttur
- Bjarna Kristjáni Þorvarðarsyni
Samhliða stjórnarstörfum sínum hjá Eik hefur Eyjólfur Árni gengt stjórnarformennsku hjá Samtökum atvinnulífsins (SA) frá árinu 2017 og Rubix Ísland frá 2016. Áður var hann forstjóri Mannvits á árunum 2008-2015.