„Það er frábært að vera kominn aftur til Landsbankans og mér líst mjög vel á verkefnin sem ég er að taka að mér,“ segir Viggó Ásgeirsson, nýr forstöðumaður Viðskiptaþróunar á Einstaklingssviði Landsbankans. Hann segir samkeppni milli íslensku bankanna ekki eingöngu liggja í kjörum heldur fyrst og fremst þjónustu við viðskiptavininn. „Það eru mikil tækifæri til að gera betur og skara fram úr, sérstaklega þegar kemur að tæknilausnum.“

Það má segja að Viggó búi yfir ágætis reynslu í þessum málum en hann stofnaði fjártæknifyrirtækið Meniga, ásamt Ásgeiri Erni bróður sínum og vini þeirra Georgi Lúðvíkssyni, árið 2009. „Við byggðum Meniga frá grunni upp í það að verða leiðandi alþjóðlegt fyrirtæki í netbankalausnum fyrir bæði app og netbanka. Ég kem því reynslunni ríkari og með nýja sýn á marga hluti.“

Viggó er giftur Jarþrúði Ásmundsdóttur, fagstjóra hugvits, nýsköpunar og tækni hjá Íslandsstofu og eiga þau tvö börn saman, Gunndóru 15 ára og Ásmund 19 ára. „Við erum nýlega flutt í miðbæinn og kunnum afskaplega vel við okkur í hringiðunni. Samstundis hef ég byrjað að lifa bíllausum lífstíl og finnst ekki verra að geta labbað í vinnuna,“ segir Viggó.

Hann bætir við að fjölskyldan hafi nýlega fengið sér hund. „Það er klárlega búið að breyta dýnamíkinni á heimilinu, nú er komið lítið barn á heimilið sem þarf að sinna.“

Viggó er söngvari í hljómsveitinni Úrkula, en hann segist alltaf hafa haft gaman af því að syngja og gleðjast með fólki. „Við hittumst miðaldra karlar á miðvikudagskvöldum og rokkum saman. Sumir fara í fótbolta til að fá útrás en við erum í rokkinu.“

Nánar er rætt við Viggó í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.