Fanney Bjarnadóttir hefur hafið störf sem verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Krónunni. Um nýja stöðu innan Krónunnar er að ræða og er henni meðal annars ætlað að efla áherslu Krónunnar í lýðheilsumálum, jafnt meðal starfsfólks og viðskiptavina, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.
Fanney er með B.Sc.-gráðu í íþrótta- og lýðheilsufræðum frá Háskóla Íslands og MS-gráðu í verkefnastjórnun frá sama skóla.
„Það er mikill fengur í Fanneyju sem kemur til Krónunnar með góða þekkingu á lýðheilsumálum sem mun nýtast til að innleiða lýðheilsustefnu Krónunnar. Markmið Krónunnar er að vera leiðandi vinnustaður í lýðheilsumálum og stuðla að betri heilsu og vellíðan starfsfólks, en ekki síður að hafa smitandi áhrif út í samfélagið og til okkar viðskiptavina með heilsusamlegri hvatningu. Við hlökkum til að þróa þessar áherslur okkar frekar með Fanneyju í fararbroddi,“ segir Ásta S. Fjeldsted , framkvæmdastjóri Krónunnar.
Sjá einnig: Sjálfbær lífsstíll að daglegum venjum
Krónan kynnti til leiks velferðarpakka Krónunnar á síðasti ári þar sem starfsfólki býðst íþróttastyrkir, sálfræðitímar, lífsstílsráðgjöf, markþjálfun og fleira.
Þá leggur Krónan mikla áherslu á hollustu í verslunum sínum. Til marks um það er bent á að sala á ávöxtum og grænmeti hefur aukist um 6,6% milli ára á meðan magn sykurs (mælt í grömmum á lítra) í drykkjum seldum hjá Krónunni hefur lækkað um 9% milli ára.