Sverrir Jónsson var í júní ráðinn skrifstofustjóri Alþingis og tekur við embættinu 1. ágúst nk. þegar núverandi skrifstofustjóri, Ragna Árnadóttir, lætur af störfum. Sverrir var valinn úr hópi 20 umsækjenda en hann býr yfir mikilli þekkingu á stjórnskipan Íslands.

Hann lauk BA-gráðu í hagfræði og atvinnulífsfræði frá Háskóla Íslands og er jafnframt með MPA-próf í opinberri stjórnsýslu. Auk þess hefur hann stundað leiðtogaþjálfun við Oxford.

Sverrir segist hafa haft venjulega drauma sem barn og ætlað sér ýmist að verða leikari eða slökkviliðsmaður. Á einum tímapunkti ætlaði hann sér svo að gerast bankastjóri þar sem hann var svo hrifinn af stimplunum sem notaðir voru í gömlu bankaútibúunum.

„Þegar ég fór í háskólann þá kynntist ég opinberri stjórnsýslu og það vakti áhuga minn. Ég hef alla tíð síðan þá unnið í opinberri stjórnsýslu og hef alltaf verið mjög heppinn í starfi, hvort sem það er með vinnustað, staðsetningu eða samstarfsfólk.“

Nánar er fjallað um Sverri í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.