„Ég er að taka við vildar­kerfinu sem er fjöl­mennasta og stærsta vildar­kerfi á landinu með 75 þúsund not­endur,“ segir Hugi Hall­dórs­son nýr við­skipta­stjóri Vildar­kerfis Sam­kaupa. „Þetta er mikil á­skorun þar sem þetta er svo stórt og mikið.“

Sam­kaup reka 60 verslanir víðs vegar um landið undir merkjum Nettó, Kram­búðarinnar, Kjör­búðarinnar og Iceland. Hjá fé­laginu starfa um 1250 starfs­menn í rúm­lega 660 stöðu­gildum.

Að sögn Huga fá með­limir í vildar­kerfinu ýmsa af­slætti gegnum smá­forrit fé­lagsins en Hugi mun einnig koma að markaðs­setningu á þeim kjörum not­endum stendur til boða. „Þetta snertir mörg svið innan Sam­kaupa. Ég mun starfa með sölu- og markaðs­stjórum Nettó, Kram­búðarinnar, Iceland og Kjör­búðarinnar. Þannig ég mun vinna þvert á verslunar­sviðin með öllu þessu fólki sem er spennandi.“

„Ég mun gera mitt besta til að bjóða sem bestu kjör fyrir þá sem nota appið. Þetta snýr um að laða bæði fólk að og halda því,“ segir Hugi og bætir við að það sé löngu orðið ljóst að fram­tíðin er staf­ræn.

Hugi var áður deildar­stjóri hjá Voda­fone, starfaði í markaðs­deildinni hjá Play og síðan markaðs­stjóri Ísorku.

Hann segir að öll sú reynsla muni nýtast sér í starfi. „Þetta er í rauninni alltaf bara þjónusta við við­skipta­vini og markaðs­starf. Ég held að reynslan mín muni nýtast í þessu og síðan er ég annálaður punkta­perri,“ segir Hugi og hlær. „Ég safna punktum út um allt.“

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði