Fimm nýir sérfræðingar hafa gengið til liðs við hönnunar- og hugbúnaðarfyrirtækið Kolibri en það eru forritararnir Þórhildur Þorleiksdóttir og Sonja Jónsdóttir, hönnuðirnir Birgitta Rún Sveinbjörnsdóttir og Eðvarð Atli Birgisson og teymisþjálfarinn Ólafur Jens Ólafsson.
Þórhildur Þorleiksdóttir er með B.Sc. í tölvunarfræði frá HR og Master í tölvunarfræði frá ETH í Zürich.
Eftir nám fór Þórhildur að vinna hjá fyrirtækinu Ledgy sem sérhæfir sig í að þróa hugbúnaðarlausn fyrir hlutabréfastýringu fyrirtækja og er með skrifstofur í London, Zürich og Berlín.
Sonja Jónsdóttir hefur meðal annars starfað hjá Íslandsbanka þar sem hún kom að forritun á netbankanum og appinu en starfaði síðast hjá fjártæknifyrirtækinu Lucinity við hönnun og forritun.
Hún er með B.Sc. í tölvunarfræði frá HR og Master í vefhönnun frá Academy of Art University í San Francisco.
Birgitta Rún Sveinbjörnsdóttir er með B.A. í Félags- og Markaðsfræði frá HÍ og útskrifaðist frá Vefskólanum 2019.
Hún hefur setið í stjórn SVEF og stofnaði sína eigin vefstofu, Studio Yellow, og hefur auk þess unnið við vef- og viðmótshönnun hjá Jökulá og síðustu þrjú ár hjá Icelandair við stafræna vöruhönnun.
Eðvarð Atli Birgisson eða Ebbi hefur starfað sem hönnuður síðan 2013 og hefur meðal annars unnið fyrir Bláa Lónið, Þjóðleikhúsið og Kviku banka. Hann starfaði sem listrænn stjórnandi hjá Jökulá og situr í stjórn Markaðsstofu Hafnarfjarðar.
Ólafur Jens Ólafsson er með B.Sc. í tölvutæknifræði frá HR og Master í Computer Engineering frá Aarhus University. Hann hefur meðal annars unnið hjá Sjóvá, Tempo, LS Retail og nú síðast hjá Controlant.
Hann hóf ferilinn sem forritari og fór þaðan yfir í agile-fræðin með fókus á teymisvinnu, þjálfun og mannlega þáttinn í tækninni.
„Birgitta og Ebbi eru dýrmæt og öflug viðbót í hönnunarhópinn okkar. Þórhildur og Sonja koma úr ólíkum áttum og með ólíkar áherslur í starfi, en forvitnin og drifkrafturinn sem einkennir þær er það sem við hjá Kolibri sækjumst eftir í nýju starfsfólki. Óli Jens kemur sterkur inn með sína faglegu nálgun en bakgrunnur hans í forritun gerir það að verkum að hann er teymisþjálfari í fremstu röð,“ segir Anna Signý Guðbjörnsdóttir framkvæmdastjóri Kolibri.