Kristjana Pálsdóttir, Katrín Björk Þórhallsdóttir, Björn Róbert Sigurðarson og Edda María Sveinsdóttir hafa á undanförnum mánuðum verið ráðin til lögmannsstofunnar Deloitte Legal sem samanstendur nú af fjórtán lögmönnum, lögfræðingum og viðskiptafræðingum. Greint er frá ráðningum þeirra í fréttatilkynningu.
Kristjana hóf störf hjá Deloitte Legal í febrúar s.l. en starfaði áður hjá Skattinum í almennu skatteftirliti. Í starfi sínu hjá Skattinum kom Kristjana að stórum og smáum málum fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki í öllum mögulegum atvinnugreinum. Kristjana hefur þannig yfirgripsmikla reynslu af skattamálum, hafandi starfað við skatteftirlit í um níu ár. Þá hefur Kristjana einnig sinnt kennslu á sviði skattaréttar við Háskóla Íslands frá 2020 og í námi til löggildingar fasteigna- og skipasala. Kristjana lauk meistaranámi við lagadeild Háskóla Íslands árið 2015.
Katrín hóf störf í júlí s.l. en starfaði áður hjá Skattinum, síðast í almennu skatteftirliti. Katrín hefur mikla reynslu af virðisaukaskatti, milliverðlagningu og öðrum skattamálum tengdum íslenskum skattarétti eftir að hafa verið hjá Skattinum í tæp sjö ár. Katrín lauk BS-prófi frá viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri og meistaranámi í skattarétti og reikningskilum frá Háskóla Íslands árið 2017.
Björn kom til starfa í ágúst s.l. en hann starfaði áður sem lögfræðingur hjá alþjóðlega hugbúnaðarfyrirtækinu LS Retail þar sem hans helstu verkefni voru almenn lögfræðiráðgjöf, yfirferð á samningum, samningagerð og samningaviðræður við erlend fyrirtæki. Einnig starfaði hann þar áður á skatta- og lögfræðissviði LS Retail og sinnti fjölbreyttum verkefnum á sviðum félaga- og skattaréttar. Björn lauk meistaranámi við lagadeild Háskólans í Reykjavík árið 2021.
Edda María Sveinsdóttir hóf störf í byrjun október s.l. en starfaði áður hjá Skattinum við álagningu virðisaukaskatts. Edda María hefur mikla reynslu af framkvæmd og álagningu virðisaukaskatts, ásamt öðrum málum tengdum íslenskum skattarétti og skattastjórnsýslunni, eftir að hafa verið hjá Skattinum í rúm fimm ár. Fyrir það starfaði Edda María í Kaupmannahöfn við regluvörslu. Edda María lauk BA-prófi frá Lagadeild Háskóla Íslands árið 2012 og meistaranámi við sama skóla árið 2015.
„Deloitte Legal hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin misseri samhliða auknum vexti í verkefnum fyrir okkar viðskiptavini. Ég er því afar ánægður að fá þau Kristjönu, Katrínu, Björn og Eddu til okkar. Þau búa yfir yfirgripsmikilli reynslu og þekkingu á kjarnasviðum Deloitte Legal, bæði í skattamálum og fyrirtækjalögfræði, og gera okkur því enn betur í stakk búin til að skapa virði fyrir okkar viðskiptavini,“ segir Haraldur I. Birgisson, meðeigandi og framkvæmdastjóri Deloitte Legal.