Tryggingatæknifyrirtækið Verna hóf starfsemi í apríl síðastliðnum en félagið hefur haslað sér völl á sviði ökutækjatrygginga. Starfsmannahópur Verna fer ört stækkandi og hefur félagið nú tilkynnt um ráðningu fjögurra starfsmanna, þar á meðal framkvæmdastjóra rekstrar og þjónustu ásamt nýjum tæknistjóra.
Jóhann Jóhannsson hefur verið skipaður framkvæmdastjóri rekstrar og þjónustu. Hann býr yfir áratugareynslu í tryggingageiranum og var síðast í um 20 ár hjá VÍS. Áður en Jóhann hóf störf við tryggingar var hann meðal annars plötusnúður á skemmtistaðnum Hollywood. Jafnframt þeytti hann skífum á FM 957 og Bylgjunni.
Snorri Örn Daníelsson er nýr tæknistjóri Verna. Hann stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki þegar hann var nemandi í Háskólanum í Reykjavík og þróaði snjallforrit sem beint var að líkamsræktarstöðvum. Á síðustu árum hefur Snorri meðal annars starfað fyrir Meniga, sem er einnig fjártæknifélag. Ásamt því að leiða tækniþróun Verna tók Snorri að sér að setja saman öll húsgögn á skrifstofu Verna þegar fyrirtækið flutti í núverandi höfuðstöðvar í Ármúla.
Ingibjörg Ásta Bjarnadóttir er nýr sérfræðingur á sviði trygginga hjá Verna. Hún hefur búið og starfað víða um heim, meðal annars í Berlín, Nice, Istanbúl og Den Haag. Síðast starfaði Ingibjörg hjá tryggingafélaginu Verði í tæplega tvö ár. Ingibjörg er meðal stjórnenda hlaðvarpsins Já elskan sem aðgengilegt er á öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Alexander Jósep Blöndal er hugbúnaðararkitekt (e. principal software engineer) hjá Verna. Alexander hefur fengist við forritun frá barnaskólaárum og skrifaði meðal annars fyrstu útgáfu hugbúnaðar sem síðar varð undirstaða HOPP-rafskútuleigunnar. Alexander var á forsetalista Háskólans í Reykjavík og hefur unnið til verðlauna frá Viðskiptaráði Íslands fyrir rannsókn á því hvernig Ísland geti orðið tæknivæddasta land heims. Alexander er hlaupari af lífi og sál.
Sjá einnig: Mörg tækifæri til hagræðingar
„Það er sérstaklega ánægjulegt að hafa svona öflugt fólk með okkur. Viðtökurnar við nýju ökutækjatryggingunum hafa verið frábærar og vöxtur félagsins hraður eftir því,” segir Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Verna.