Ég er náttúrulega héðan úr bænum en pabbi var að vinna hjá forverum Brims, fyrst Bæjarútgerð Reykjavíkur sem síðan varð Grandi og seinna meir HB Grandi sem breyttist svo í Brim núna 2019. Þá var maður mikið að þvælast með pabba niður að bryggju, til dæmis í kringum loðnuna. Svo þróast það þannig að ég fer í sumarvinnu hjá Granda þegar ég verð 16 ára og er þar öll sumur, mest að vinna í vinnslunni en prófaði einnig að fara út á sjó,“ segir Garðar Svavarsson, nýráðinn kaupfélagsstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Ég er náttúrulega héðan úr bænum en pabbi var að vinna hjá forverum Brims, fyrst Bæjarútgerð Reykjavíkur sem síðan varð Grandi og seinna meir HB Grandi sem breyttist svo í Brim núna 2019. Þá var maður mikið að þvælast með pabba niður að bryggju, til dæmis í kringum loðnuna. Svo þróast það þannig að ég fer í sumarvinnu hjá Granda þegar ég verð 16 ára og er þar öll sumur, mest að vinna í vinnslunni en prófaði einnig að fara út á sjó,“ segir Garðar Svavarsson, nýráðinn kaupfélagsstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Garðar hefur unnið hjá Brimi síðastliðin 24 ár og segir að það hafi ekki liðið ár þar sem hann var ekki að vinna hjá félaginu og forverum þess. Eftir að hafa klárað menntaskóla tók hann eina önn í efnaverkfræði en fann sig ekki þar.

„Svo dett ég inn á kynningu um sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri og möguleika þess að vera í fjarnámi. Þannig að ég fór í það og tók námið í bænum að mestu samhliða vinnu.“

Hann byrjaði í því námi árið 2004 og var þá í ýmsum afleysingarstörfum hjá sölu- og markaðs- deild Granda. Árið 2007 varð hann svo sölustjóri fyrir fiskimjöl og lýsi og var það fyrsta fasta hlutverk hans innan fyrirtækisins. Til viðbótar fór hann svo að selja frystar uppsjávarafurðir þegar álagið á sölumennina jókst með tilkomu makrílsins.

Í haust mun Garðar svo taka við af Friðriki Mar Guðmundssyni sem lætur af störfum eftir 19 ára starf, þar af sem framkvæmdastjóri undanfarin 10 ár.

„Ég þekki ágætlega vel til Loðnuvinnslunnar í gegnum mitt starf og þekki Friðrik vel. Hann hafði svo samband við mig til að kanna áhuga minn á því að koma austur. Ég hafði mikinn áhuga á starfinu en sá ekki fram á að flytja fjölskylduna þar sem öllum líður vel í bænum og konan mín mjög ánægð í góðu starfi sem náms- og starfsráðgjafi í Kópavogsskóla.“

Garðar segir Fáskrúðsfjörð tilvalinn stað fyrir áhugamál sín en hann stundar bæði fisk- og skotveiði og hefur einnig áhuga á golfi. Hann og sonur hans eiga líka kajaka og segist hann hafa mjög gaman af því að fara út á þeim og veiða.

„Við erum mjög spennt fyrir komandi tímum. Við ætlum meðal annars að fara á franska daga með hjólhýsi og kíkja á þennan merkilega viðburð. Þar munum við líka fá að kynnast samfélaginu og taka fyrstu skrefin í að verða Fáskrúðsfirðingar.“

Viðtalið við Garðar birtist fyrst í Viðskiptablaði vikunnar.