Íslandsbanki hefur ráðið í fjórar stöður stjórnenda hjá bankanum.
Árdís Björk Jónsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður daglegra bankaviðskipta, Freyr Guðmundsson forstöðumaður stafrænnar þróunar, Guðmundur Böðvar Guðjónsson deildarstjóri vörumerkis og Petra Björk Mogensen forstöðumaður viðskiptaumsjónar.
Árdís Björk Jónsdóttir kemur til Íslandsbanka frá Stokki Software þar sem hún hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra frá vordögum 2021. Þar áður var Árdís yfir sjónvarps- og upplýsingatæknisviði Sýnar, stýrði verkefnastofu hjá N1, auk starfa fyrir upplýsingatæknifyrirtækið Advania á Íslandi og tölvuleikjaframleiðandann CCP.
Freyr Guðmundsson hefur undanfarin 15 ár starfað sem ráðgjafi í fjártækni, bankaþjónustu og nýsköpunargreinum í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum.
Samkvæmt tilkynningu frá bankanum býr Freyr að mikilli reynslu á sviði vörustjórnunar og tæknilegrar forystu, stafrænna umbreytinga, leiðtogafærni og stjórnunar.
Guðmundur Böðvar Guðjónsson, kemur til Íslandsbanka frá Símanum þar sem hann sá um markaðssetningu fyrir Sjónvarp Símans. Þar áður var hann deildarstjóri á sölu- og markaðssviði Icelandair.
Petra Björk Mogensen hefur víðtæka reynslu úr fjármálageira og hefur starfað hjá Íslandsbanka frá árinu 2019.
Petra hefur sinnt stefnumótandi verkefnum þvert á bankann með það að markmiði að auka skilvirkni og bæta þjónustuupplifun.
Síðastliðin tvö ár hefur Petra gengt starfi vörustjóra útlánalausna og tekið þátt í innleiðingu á stafrænni stefnu bankans. Áður starfaði hún meðal annars hjá WOW air og Arion banka.